18. janúar 2024
Hafsteinn Hauksson hefur tekið við starfi aðalhagfræðings Kviku. Hafsteinn á að baki áralanga reynslu af alþjóðlegum fjármálamarkaði, en hann hefur starfað við greiningar í fjárfestingateymi Lundúnaskrifstofu Kviku frá árinu 2019 og hefur vakið verðskuldaða athygli sem álitsgjafi á alþjóðlegri efnahagsþróun undanfarin ár. Hann hefur áfram aðsetur í Lundúnum.
Hafsteinn lauk meistaragráðu í fjármálum og hagfræði frá London School of Economics árið 2015 og útskrifaðist sem hagfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2012.
Hafsteinn hefur starfað í Lundúnum frá lokum meistaranáms árið 2015, fyrst hjá ráðgjafarfyrirtækinu Newstate Partners, sem er leiðandi í ráðgjöf á sviði opinberra fjármála og stýringu og endurskipulagningu opinberra skulda, og síðar hjá GAMMA Capital Management Ltd.
Hafsteinn var á árum áður hagfræðingur í greiningardeild Arion banka og starfaði einnig sem fjölmiðlamaður með námi, lengst af á fréttastofu Stöðvar 2.