20. júní 2024
Á Kvenréttindadaginn þann 19. júní fór fram úthlutun styrkja úr sjóði FrumkvöðlaAuðar. Megin markmið sjóðsins er að hvetja konur til frumkvæðis og athafna og í ár bárust sjóðnum yfir 60 umsóknir. Stjórn FrumkvöðlaAuðar veitti fimm verðugum verkefnum styrk í ár en þetta var í 15. sinn sem úthlutað var úr sjóðnum. Þau verkefni sem hlutu styrk voru:
Bati Health – Smáforrit sem hefur það markmið að bæta lífsgæði einstaklinga sem glíma við áfengis- og vímuefnafíkn
Dýpi – Fyrsta hafmálningin sem er framleidd úr vottaðri náttúruafurð, kalkþörungum úr Arnarfirði
Flöff – Stefnir á að koma á fót fyrstu textíl endurvinnslustöðinni á Íslandi þar sem ónothæfur textíll er brotinn niður og úr honum sköpuð verðmæti m.a. vörur með hljóðdempandi áhrifum
Heima – Smáforrit sem hjálpar fjölskyldum að skipta annarri og þriðju vakt heimilisins á milli sín á skemmtilegan hátt
Hringvarmi – Nýtir umfram varma gagnavera til matvælaframleiðslu, nánar tiltekið spírur (e. microgreens)
Anna Rut Ágústsdóttir framkvæmdastjóri Rekstrar og Þróunar hjá Kviku og formaður stjórnar FrumkvöðlaAuðar
„Það er mikill sköpunarkraftur meðal kvenna og barst sjóðnum yfir 60 umsóknir af fjölbreyttum, áhugaverðum og spennandi verkefnum. Það var því skemmtileg áskorun fyrir stjórnina að velja þau verkefni sem hljóta styrk í ár. Ég óska öllum sem sendu inn umsókn velfarnaðar með sín verkefni um leið og ég óska styrktarhöfum innilega til hamingju.”